Shopping cart

close

Húrra Reykjavík mælir með — Kvikmyndir Annar Hluti

Við hjá Húrra Reykjavík viljum deila með ykkur öðrum hluta af okkar uppáhalds kvikmyndum. 

Njótið vel!

Kill Bill: Volume 1 (2003)

Beatrix Kiddo–Uma Thurman upp á sitt besta – er einn allra svalasti karakter í kvikmyndasögunni. Upphaflega var myndin rúmir fjórir tímar en í eftirvinnslu var ákveðið að skipta henni upp í tvo hluta: Volume 1 & 2. Í Kill Bill: Vol 1 fylgjum við Beatrix, þar sem hún leitar hefnda á fyrrum meðlimum „Deadly Viper Assassination Squad“ og leiðtoga þeirra, Bill. Myndin er ein af mínum uppáhalds, ekki aðeins fyrir þær sakir að hún er skrifuð og leikstýrð af Tarantino heldur líka vegna þess að hún óður til bardagalista og spaghettí Vestra; svo er hún líka fagurfræðilega fullkomin.

– Ísak Ernir Sveinsson

Honey Boy (2019)

Myndin fjallar um Otis sem er ungur leikari og samband hans við föður sinn. Þessi mynd er frumraun Shia Lebouf í handritsgerð. Hann byggir söguna um strákinn Otis á sinni eigin barnæsku og hans fyrstu árum sem leikari. Shia leikur pabba sinn í myndinni sem er alki og öfundsjúkur út í strákinn og hans velgengni. Myndin er mjög tilfinningaþrungin og erfið á köflum – það féllu nokkur tár.

– Irena Sveinsdóttir

Interstellar (2014)

Númer eitt, þá er ég sucker fyrir geimmyndum og sci-fi. Geimferðir, ljóshraði, svarthol og tímaflakkspælingar eru allt hlutir sem kveikja í mér á óútskýranlegan hátt. Í Interstellar er öllum blautum draumum 12 ára Star Wars nördans blandað saman við við sjúklega vandað drama og allan skalann af mannlegum tilfinningum. Frábær söguþráður og geðveikt cast sem heldur manni við efnið frá fyrstu mínútu og út í gegn.

*Takið eftir Detroit jakkanum frá Carhartt sem Cooper (Matthew McConaughey) klæðist í fyrri hluta myndarinnar. Eitraður.

– Ólafur Alexander Ólafsson

Philomena (2013)

Ég gat ekki hætt að hugsa um þessa mynd eftir að hafa horft á hana og grátið úr mér augun þar sem myndin er byggð á sannsöguleika. Myndin er ótrúlega hjartnæm og fjallar um eldri konu sem heldur í leit að syni sínum með fyrrverandi ritara hjá þekktri fréttastofu. Myndin er byggð á bókinni The Lost Child of Philomena Lee og er hrikalega sorgleg en á sama tíma spennandi og fyndin.

– Sara Margrét Emilsdóttir

Pretty Woman (1990)

Rómantískar bíomyndir eru alveg í uppáhaldi hjá mér og þá sérstaklega Pretty Woman. Hún er mjög fyndin, væmin & rómantísk. Get endalaust horft á hana og er alltaf jafn góð. Julia Roberts og Richard Gere eru náttúrulega frábærir leikarar og bæði virkilega myndarleg. Hver einasti karakter er einstakur á sinn hátt. Finnst litirnir og stíllinn í myndinni líka svo heillandi og æðislegir, 90s vibe. Klárlega mín uppáhalds mynd.

– Alexía Mist Baldursdóttir